örleikrit - hanna
Síminn hringir
Síminn hringir og mig langar að æla. Níu til fimm, níu til fimm níu til fimm, um helgina gerist eitthvað skemmtilegt með stelpunum, vinkonum sem vinna níu til fimm níu til fimm níu til fimm - ég er að hugsa allt of mikið - hvað er ég að segja? Eitthvað merkilegt vonandi? Hver veit hvað er merkilegt einu sinni.
Síminn hringir og ég svara góðan daginn hér er ég að svara í símann. Merkilegt hvað síminn er merkilegur eitthvað alltaf hægt að ná í mig ná í mig - náðu í mig - viltu sækja mig mamma mig langar heim ég er þreytt ég er lasin nei mamma er upptekin í vinnunni hún er að vinna, hún er að svara í símann, hún er að vera mikilvæg og upptekin fyrir aðra en mig en mig langar bara heim að horfa á teiknimynd. Síminn hringir, hæ þetta er mamma nei djók haha ég er ég, ég er ekki mamma mín.
Níu til fimm níu til fimm níu til sex sjö átta níu tíu ég er sein, er lengi, er sein og lengi og sef ekki nóg, sef ekki, hver sefur einu sinni? Smá amfetamín á morgnanna og róandi á kvöldin eins og in the sixties, hversu frábært væb var það? Töflur til að sofa, töflur til að vakna og reminder í símann til að muna að taka töflur og svo sef ég yfir símann hann hringir hringir hringir og pingar og ding og tölvupóstur og status update, snapchat, insta skilaboð, þú verður að horfa á þetta myndband! Hvaða köttur er ég? Taktu quiz vertu quick svaraðu í símann í símann í símann þú átt að vera að vinna, af hverju ertu ekki að senda tölvupóst?
Gleymdi að borða og borða svo og borða og borða alla nóttina hef ekki tíma til að sofa ekki tíma til að pissa eða kúka svo ég er farin að ganga um með bleyju í dragtinni sem ég hef ekki tíma til að þvo ég þarf að fara í símann þarf að vera merkileg, clean girl aesthetic og með skincare routine síminn, síminn, síminn er hættur að hringja en hann kallar á mig, hann öskrar nafnið mitt, öskrar og öskrar og ég heyri ekkert annað, ég heyri bara í símanum öskra á mig hann öskrar og öskrar og öskrar og öskrar og síminn hringir.
Góðan daginn, þetta er ég.
árið án sumars - rýni
Í Árið án sumars fer sviðslistahópurinn Marmarabörn um víðan völl. Við hefjum leikinn í því sem virðist vera kjarnorkuvetur. Það vakti strax athygli mína að á sviðinu var arineldur gerður úr neon-ljósum. Tilgangur arinsins er að veita hita og kyndingu, en þessi arin var gerður úr led-perum sem raðað var í einhvers konar eldstæðismímík. Hvaða úrkynjun hafði orðið til þess að eldstæðið, arininn, missti allt hlutverk sitt?
Í Árið án sumars fer sviðslistahópurinn Marmarabörn um víðan völl. Við hefjum leikinn í því sem virðist vera kjarnorkuvetur. Það vakti strax athygli mína að á sviðinu var arineldur gerður úr neon-ljósum. Tilgangur arinsins er að veita hita og kyndingu, en þessi arin var gerður úr led-perum sem raðað var í einhvers konar eldstæðismímík. Hvaða úrkynjun hafði orðið til þess að eldstæðið, arininn, missti allt hlutverk sitt? Það eru fleiri hlutir í heiminum sem af geðþótta (e. arbitrarily) hafa misst tilgang sinn en leika hlutverk í veröldinni okkar og þá sérstaklega tungumálinu. Það „skrúfar” enginn lengur niður rúðuna á bíl, fólk ýtir á hnapp og hún sígur niður eins og fyrir töfra. Höfðu persónurnar í sýningunni einnig misst hlutverk sitt? Kannski vissu þau ekki hver þau voru og voru þarna föst í limbó-i kjarnorkuvetursins.
Notkun sýningarinnar á ljósum er einstaklega áhugaverð og spennandi. Það er mistur í salnum, blá birta og dularfullt andrúmsloft. Leikmunir fá merkingu, eins og dyr sem enginn gengur í gegn-um en svo er merkingunni breytt á svipstundu. Allt í einu mega allir ganga í gegn um dyrnar og þær hætta að hafa vægi fyrir vikið.
Þátttakendur sýningarinnar fljóta inn á sviðið á fleka, koma sígandi niður úr loftinu eða rísa upp úr líkkistu. Upphafið er ótrúlega spennandi og svo gerist… ekkert. Taktur sýningarinnar er hægur. Persónurnar vafra um í óskiljanlegum textabrotum, virðast vera með einhverja ætlun en bregða frá henni á örskotsstundu, reykja og borða gúmmíorma og eru svöl. Þau tala um Byron og Shelley, veipa, leika skrímsli og láta sér að leiðast og gefa þannig vísbendingu um kveikju titils verksins, hið raunverulega ár án sumars.
Það er eins og sýningin hefjist nokkrum mínútum fyrir hlé, þegar ein persónan tekur upp á því að brjóta gólfið með bjöllu, sem gæti verið dómsdagsbjallan að minna okkur á að tíminn er naumur? Táknmyndirnar í verkinu eru óendanlegar en hléið var kærkomið og það sem kom eftir hlé var áhugavert og spennandi. Svarthvítt ljós, róbótískar hreyfingar. Við höldum áfram með kjarnorkuveturinn frá öðru sjónarhorni, sjónarhorni vélmenna kannski. Svarthvítt ljósið gerir það að verkum að við áttum okkur ekki á að við erum að horfa á rauðan lit. Rauða sloppa og rauða andlitsmaska sem í gegn um einhvers konar ritúal sem við áhorfendur, og kannski jafnvel þátttakendurnir, skiljum ekki verða að heilagri næringu. Næringu eða blóðfórn? Við blæðum og verðum að vampýrum sem stíga trylltan dans, þjóðdans. Skilja þær hvað dansinn gengur út á? Úrkynjunin nær til allra stiga sýningarinnar, afbyggingin er alger en hún er náttúruleg. Hlutirnir hafa misst tilgang sinn og manneskjurnar líka. Allt er háð geðþótta, hefðum og misskilning.
Við ljúkum sýningunni á því að lofsyngja bílljós og ör sem veit ekki hvert hún á að benda. Kannski eins og mannkynið í dag?