örleikrit - hanna
Síminn hringir og mig langar að æla. Níu til fimm, níu til fimm níu til fimm, um helgina gerist eitthvað skemmtilegt með stelpunum, vinkonum sem vinna níu til fimm níu til fimm níu til fimm - ég er að hugsa allt of mikið - hvað er ég að segja? Eitthvað merkilegt vonandi? Hver veit hvað er merkilegt einu sinni.
Síminn hringir og ég svara góðan daginn hér er ég að svara í símann. Merkilegt hvað síminn er merkilegur eitthvað alltaf hægt að ná í mig ná í mig - náðu í mig - viltu sækja mig mamma mig langar heim ég er þreytt ég er lasin nei mamma er upptekin í vinnunni hún er að vinna, hún er að svara í símann, hún er að vera mikilvæg og upptekin fyrir aðra en mig en mig langar bara heim að horfa á teiknimynd. Síminn hringir, hæ þetta er mamma nei djók haha ég er ég, ég er ekki mamma mín.
Níu til fimm níu til fimm níu til sex sjö átta níu tíu ég er sein, er lengi, er sein og lengi og sef ekki nóg, sef ekki, hver sefur einu sinni? Smá amfetamín á morgnanna og róandi á kvöldin eins og in the sixties, hversu frábært væb var það? Töflur til að sofa, töflur til að vakna og reminder í símann til að muna að taka töflur og svo sef ég yfir símann hann hringir hringir hringir og pingar og ding og tölvupóstur og status update, snapchat, insta skilaboð, þú verður að horfa á þetta myndband! Hvaða köttur er ég? Taktu quiz vertu quick svaraðu í símann í símann í símann þú átt að vera að vinna, af hverju ertu ekki að senda tölvupóst?
Gleymdi að borða og borða svo og borða og borða alla nóttina hef ekki tíma til að sofa ekki tíma til að pissa eða kúka svo ég er farin að ganga um með bleyju í dragtinni sem ég hef ekki tíma til að þvo ég þarf að fara í símann þarf að vera merkileg, clean girl aesthetic og með skincare routine síminn, síminn, síminn er hættur að hringja en hann kallar á mig, hann öskrar nafnið mitt, öskrar og öskrar og ég heyri ekkert annað, ég heyri bara í símanum öskra á mig hann öskrar og öskrar og öskrar og öskrar og síminn hringir.
Góðan daginn, þetta er ég.